NÁMSUMHVERFIÐ

Stúdíó Sýrland

Námið í hljóðtækni er á vegum Tækniskólans en kennslan fer fram í Stúdíó Sýrlandi, sem er framkvæmdaraðili námsins. Nemendur læra í höfuðstöðvum Stúdíó Sýrlands að Vatnagörðum 4, þar sem þau fá aðgang að faglegri aðstöðu í einu af fremstu hljóðverum landsins.

Stúdíó Sýrland var stofnað árið 1988 og hefur sérhæft sig í hljóðvinnslu fyrir tónlist, kvikmyndir og sjónvarp. Fjöldi íslenskra og erlendra listamanna hafa lagt leið sína í stúdíóið sem er þekkt fyrir framúrskarandi gæði og fagmennsku í allri sinni starfsemi.

Félagslífið

Hljóðtækni er félagsvænt nám sem leggur áherslu á samvinnu, hópaverkefni og félagslíf. Nemendur okkar hafa skapað mikla vináttu þar sem bekkjakerfi er í náminu. Nemendur stofna nemendaráð, fara í hópefli og aðra skemmtilega viðburði að sínu eigin frumkvæði og á ári hverju gera þau eitthvað nýtt.

Hér er hópur af nemendum úr 15. árgangi sem hafa tekið það frumkvæði að hanna boli með andlitum sínum á ‘‘soundgellur’’ og eru í þann mund að hefja live-vikuna sem er á 1. og 3. önn.

Sunna, Steinunn, Birgitta, Jónína og Brynja

Námsver A

Námsver A er hágæða hljóðver, hannað með nemendur í huga, þar sem fagleg vinnuaðstaða og tækni mætast. Hljóðverið er búið sérsmíðuðu borði og AVID C24 stjórnborði, sem gerir notendum kleift að hafa fulla stjórn á hljóðvinnslu. Að auki eru 4 rásir af formögnurum, EQ og compressor til staðar til að tryggja hámarks sveigjanleika í vinnslu hljóðsins. Hljóðverið er bæði vel hljóðeinangrað og rúmgott, sem skapar fullkomin vinnuskilyrði.

Nemendur hafa aðgang að Námsveri A allan sólarhringinn meðan á námi stendur. Hljóðverið tengist einnig litlum upptökuklefa, sem hentar vel til hljóðupptöku. Á þriðju önn er 5.1 surround kerfi sett upp, sem gerir kleift að vinna hljóðblöndun fyrir kvikmyndir. Námsver A er sérstaklega hannað til að uppfylla þarfir nemenda í hljóðvinnslu og upptökum, með sérstakri áherslu á hljóðblöndun.

Námsver B

Námsver B er sérhannað hljóðver fyrir nemendur í hljóðtækni, með fullkomnum tækjabúnaði til að styðja við skapandi vinnu. Hljóðverið er búið sérsmíðuðu borði og 16 rásum af formögnurum, EQ og compressor, sem veitir mikinn sveigjanleika og nákvæmni í hljóðvinnslu.

Aðstaðan inniheldur einnig rúmgott upptökurými með trommusetti og gítarmögnurum, sem gerir það fullkomið fyrir upptökur á tónlist og öðrum verkefnum nemenda. Námsver B er hannað fyrir skapandi vinnu og veitir nemendum frábært rými til að þróa verkefni sín. Hljóðverið er aðgengilegt allan sólarhringinn á meðan námi stendur, sem gerir það að sveigjanlegri og aðlaðandi vinnuaðstöðu.

Stúdíó A

Stúdíó A er stærsta og fullkomnasta hljóðverið í Stúdíó Sýrlandi og eitt af stærstu hljóðverum á Íslandi. Hljóðverið býður upp á 64 rása upptöku, SSL mixer og Avid S3, ásamt úrvali af vintage outboard búnaði, sem skapar einstakt umhverfi fyrir hágæða hljóðvinnslu. Í Stúdíó A eru einnig þrír sér hljóðeinangraðir upptökuklefar, sem gera það að ómissandi aðstöðu fyrir metnaðarfull verkefni.

Nemendur fá aðgang að Stúdíó A á þriðju önn þegar þau vinna að lokaverkefninu sínu, þar sem þau geta nýtt sér fullkomna aðstöðu til að skapa og vinna að stórum hljóðverkefnum á fagmannlegan hátt.